**Svör stjórnmálaflokka sem boðið sig hafa fram í kosningum til Alþingis haustið 2024 við spurningum Afstöðu um hvað þau ætla sér að gera í fangelsismálunum.
Afstaða brýnir til fanga og aðstandanda að skoða vel svör flokkanna og taka ákvörðun eftir því sem best á fyrir hvern og einn.
Öllum flokkum voru sendar sömu spurningarnar en ekki allir flokkar svöruðu.
Hér eru svörin þeirra sem svöruðu:**
FRAMSÓKNARFLOKKURINN: Hvernig sér ykkar flokkur fyrir sér að bæta samstarf við frjáls félagasamtök á sviði fangelsismála?
Svar: Framsókn leggur áherslu á samvinnu á breiðum grundvelli og telur að frekari samstarf við frjáls félagasamtök á sviði fangelsismála sé mikilvægt til að bæta endurhæfingu fanga og styðja betur við fjölskyldur þeirra. Flokkurinn styður við lausnir sem byggja á samfélagslegri ábyrgð, samfélagsþátttöku og samvinnu, sem gæti leitt til aukins samstarfs við samtök og félög sem vinna með betrun og endurkomu fanga í samfélagið. Mikilvægt er að styrkja tengsl við frjáls félagasamtök sem sérhæfa sig í virknitengdum úrræðum fyrir fanga, s.s. konur í fangelsi líkt og námskeið fyrir konur á vegum Bata, sem Ásmundur Einar hefur ákveðið að styðja.
Hvaða breytingar telur flokkurinn nauðsynlegar til að auka skilvirkni og gæði fullnustukerfisins á Íslandi?
Svar: Framsókn hefur talað fyrir nauðsyn þess að auka skilvirkni fangelsiskerfisins. Framsókn telur að til að auka skilvirkni og gæði fullnustukerfisins á Íslandi sé nauðsynlegt að framkvæma ákveðnar breytingar. Flokkurinn leggur áherslu á að: 1. Styrkja innviði: Auka fjárfestingar í innviðum sem tengjast fullnustukerfinu, svo sem aðstöðu og tækni, til að tryggja betri þjónustu. 2. Menntun og þjálfun: Bjóða upp á frekari menntun og þjálfun fyrir starfsfólk í fullnustukerfinu, til að auka fagmennsku og tryggja að starfsemi sé í samræmi við bestu venjur. Menntun og virkniúrræði eru stór þáttur í farsæld einstaklinga og mikilvægt er að styðja við slík úrræði enn frekar en gert er í dag. 3. Samstarf við frjáls félagasamtök: Efla samstarf við frjáls félagasamtök sem geta veitt stuðning og úrræði fyrir þá sem eru í fullnustu, til að auka árangur í endurhæfingu. 4. Fyrirbyggjandi aðgerðir: Leggja áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir sem miða að því að draga úr brotum og stuðla að betri aðstæðum fyrir þá sem eru í fullnustu. Þessar breytingar eru taldar mikilvægar til að tryggja að fullnustukerfið sé bæði skilvirkt og gæðamikið, sem stuðlar að betri árangri í samfélaginu.
Hvaða ráðstafanir hyggst ykkar flokkur gera til að styðja betur við fjölskyldur og aðstandendur fanga?
Svar: Framsókn hefur talað fyrir auknum stuðningi við fjölskyldur fanga, enda er fjölskyldan í forgrunni í stefnumálum flokksins. Meðal þeirra úrræða sem nefnd hafa verið er aukin ráðgjöf og aðgangur að þjónustu fyrir fjölskyldur fanga, sérstaklega í gegnum félagasamtök sem veita slíka aðstoð. Þá þarf að auka fræðslu og upplýsingar um réttindi og úrræði sem eru í boði fyrir fjölskyldur fanga, auka samskipti milli fangelsa og fjölskyldna og þá þarf einnig að veita börnum fanga sérstakan stuðning og hjálpa þannig fjölskyldum að aðlagast breyttum aðstæðum. Framsókn sér fyrir sér t.d. samstarfsverkefni ráðuneyta og félagasamtaka í fangelsum til að fjölskyldur hittist, bæta þarf upplýsingagjöf með barnvænni nálgun, og setja á stofn barnafulltrúa eins og gert er á Norðurlöndum.
MIÐFLOKKURINN: * Hvernig sér ykkar flokkur fyrir sér að bæta samstarf við frjáls félagasamtök á sviði fangelsismála?
Miðflokkurinn telur að frjáls félagasamtök skipti miklu máli í lýðræðisþjóðfélagi og vill auðvelda þeim að starfa. Félög sem berjast fyrir bættum hag félagsmanna eða skjólstæðinga sinna geta verið mikilvægur farvegur fyrir umræðu, ábendingar og tillögur að bættu verklagi eða nýjum vinnubrögðum. Allt með það að markmiði að auka réttlæti, bæta þjónustu, breyta vinnubrögðum eða hagræða í þjónustu ríkisins. Miðflokkurinn fagnar öllu samstarfi og samtali, nú sem fyrr um aðgerðir til að bæta okkar samfélag.
- Hvaða breytingar telur flokkurinn nauðsynlegar til að auka skilvirkni og gæði fullnustukerfisins á Íslandi?
Miðflokkurinn telur mikilvægt að nýta betur þær leiðir sem reynst hafa vel til fullnustu refsinga, svo sem rafrænt eftirlit, samfélagsþjónustu og meðferðarúrræði á refsivistartímanum. Einnig þarf að huga miklu betur að sérfræðiráðgjöf, sálfræðiþjónustu og stuðningi við fanga meðan á refsivist stendur. Um leið þarf að leita allra leiða til að efla og bæta endurhæfingu fanga, svo þeir verði betur í stakk búnir til að samlagast samfélaginu eftir að refsivist lýkur.
- Hvaða ráðstafanir hyggst ykkar flokkur gera til að styðja betur við fjölskyldur og aðstandendur fanga?
Svarið við þessu má að hluta til sækja í svör við fyrstu spurningunni en lykilatriði er að vinna náið með samtökum fanga og aðstandenda. Það má öllum vera ljóst að aðstandendur fanga eru ekki í öfundsverðri stöðu og mikilvægt að aðstoða þá eins og hægt er við að gera fjölskyldulífið eins gott og unnt er meðan þau eiga einstakling í fullnustukerfinu.
VINSTRI GRÆN: 1) Hvernig sér ykkar flokkur fyrir sér að bæta samstarf við frjáls félagasamtök á sviði fangelsismála?
VG hefur ætíð lagt mikið upp úr mikilvægi frjálsra félagasamtaka. Störf félagasamtaka mynda verðmætan félagsauð fyrir samfélagið, fólk með sambærileg lífsgildi og áhugamál. Frjáls félagasamtök, eins og Afstaða - félag fanga, gegnir lykilhlutverki ekki aðeins fyrir fanga heldur líka fjölskyldur þeirra, fangelsisyfirvöld, lögreglu, dómskerfi og samfélagið í heild. Við Vinstri græn munum halda áfram að halda mikilvægi þeirra á lofti í ræðu, riti og stefnumótun. Við munum halda áfram að vinna að jákvæðari viðhorfum innan pólitíkurinnar og stjórnkerfisins og leggja okkar af mörkum við að vinna að tryggari og fyrirsjáanlegri rekstrargrundvelli fyrir frjáls félagasamtök á sviði fangelsismála. Félagasamtök á borð við Afstöðu - félag fanga búa við ákveðna sérstöðu sem gerir þeim enn erfiðara fyrir með að tryggja sér fjármagn frá sínum félagsmönnum en önnur frjáls félagasamtök. Það er því enn brýnna að tryggja betur fjárhagslegan stöðugleika og fyrirsjáanleika en nú er. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, alþingismaður og fyrrverandi félags-og vinnumarkaðsráðherra, breytti fyrirkomulagi styrkja til félagasamtaka í ráðherratíð sinni þannig að í stað eins árs styrkja þá geta nú félagasamtök sótt um allt að þriggja ára rekstrarstyrk auk þess að geta sótt um styrki til sérstakra verkefna. Á kjörtímabilinu hefur hann tvöfaldað fjármagn til velferðarstyrkja úr 107 milljónum króna árið 2022 í 220 milljónir í ár, auk þess sem samningum við frjáls félagasamtök sem sinna margvíslegri velferðarþjónustu utan þessara styrkja hefur fjölgað. Fyrr á kjörtímabilinu voru þar að auki gerðar mikilvægar breytingar á skattaumhverfi frjálsra félagasamtaka. Þær fólu í sér að einstaklingar geta nú fengið skattaafslátt upp á allt að 350.000 krónur á ári vegna framlaga til almannaheillafélaga.
2) Hvaða breytingar telur flokkurinn nauðsynlegar til að auka skilvirkni og gæði fullnustu kerfisins á Íslandi?
Við þurfum að nálgast verkefnið með mennskuna að leiðarljósi. Þegar kemur að fullnustu kerfinu á Íslandi verða skilvirkni og gæði því ávallt að hafa mennskuna með í för. Það er alveg ljóst að skilvirkni má aldrei verða á kostnað mennsku eða gæða. Þegar Svandís Svavarsdóttir formaður VG var heilbrigðisráðherra var geðheilsuteymi fanga sett á laggirnar en verkefnið var afrakstur metnaðarfullrar samvinnu heilbrigðis- og dómsmálaráðherra. Teymið starfar með og styður við starfsemi heilsugæslunnar í fangelsum. Við stofnun þess var lögð áhersla á samstarf við aðra þjónustuveitendur og að tryggja eftirfylgni og stuðning félags- og heilbrigðisþjónustu eftir að afplánun lýkur. Sem heilbrigðisráðherra jók Svandís framlög til heilbrigðisþjónustu fanga umtalsvert. En betur má ef duga skal og urmull bráðra verkefna sem bíða eins og það að tryggja föngum möguleika á að sækja sér nám og að fá viðeigandi stuðning til þess, auka möguleika fanga til að vinna og fá mannsæmandi laun fyrir og síðast en ekki síst að bæta aðstöðu fanga til að taka á móti heimsóknum ástvina. Aðkoma Afstöðu – félags fanga að öllum þessum brýnu verkum er mikilvæg til að tala máli sinna félagsmanna, sem alls ekki er einsleitur hópur og tryggja að rödd þeirra heyrist. VG mun nú sem fyrr beita sér fyrir því að mennskan verði í forgrunni þegar kemur að gæðum og skilvirkni í fullnustukerfinu hvort sem það verður með því að styðja við frjáls félagasamtök eða með beinni aðkomu eins og átti við í geðheilsuteymi fanga. Jafnframt er mikilvægt að huga að mun betur að því hvað tekur við að lokinni afplánun. Tryggja þarf húsnæði og boð um eftirfylgni og endurhæfingu fyrir einstaklinga að lokinni afplánun, út í samfélagið að nýju. Styðja fólk til betra lífs þar sem að þau upplifa sig tilheyra í stað þess að upplifa sig á jaðrinum. Slíkur stuðningur dregur ekki aðeins úr líkunum á endurteknum afbrotum og dómum heldur eykur lífsgæði bæði viðkomandi einstaklings og allra þeirra sem tengjast honum. Allir vinna – einstaklingurinn sjálfur, ástvinir og samfélagið allt
3) Hvaða ráðstafanir hyggst ykkar flokkur gera til að styðja betur við fjölskyldur og aðstandendur fanga?
Stuðningur við fjölskyldur og aðstandendur fanga er gríðarlega mikilvægur. Á vormánuðum 2022 veitti Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags-og vinnumarkaðsráðherra Þjóðkirkjunni styrk upp á 10 milljónir til að geta boðið aðstandendum fanga upp á þjónustu, stuðning og ráðgjöf. Það verkefni var útfært í samstarfi við Afstöðu og í loks árs 2023 veitti ráðherra verkefninu áframhaldandi stuðning upp á 12 m.kr. Verkefnið hefur hlotið heitið Bjargráð. Við Vinstri græn munum að sjálfsögðu halda áfram að styðja við félagasamtök, eins og Afstöðu sem sinna og þjónusta aðstandendur fanga. Félagasamtök eins og Afstaða eru mikilvæg, ekki aðeins til að styðja beint við aðstandendur og fanga sjálfa heldur líka til að vera kröftugt og gagnrýnið aðhald á stjórnvöld.
Samfylkingin: Hvernig sér ykkar flokkur fyrir sér að bæta samstarf við frjáls félagasamtök á sviði fangelsismála? Samfylkingin hefur fylgst með áratuga starfi Afstöðu og hvernig félagið hefur náð að snúa við umræðunni um fanga og fangelsi á málefnalegan hátt og augljóst að viðurkenna mikilvægi þess starfs í stuðningi við fanga og endurhæfingu þeirra inn í samfélagið. Flokkurinn leggur áherslu á að styrkja samstarf við samtök á borð við Afstöðu, með áherslu á sameiginleg markmið um velferð fanga og betrun. Slíkt samstarf er nauðsynleg til að auka skilvirkni og mannúð fangelsiskerfisins, fækka endurkomum í fangelsin og fækka glæpum í samfélaginu. Undanfarin ár hafa stjórnvöld stutt við rekstur Afstöðu með ýmsum hætti. Að mati Samfylkingarinnar er mikilvægt að stjórnvöld haldi áfram stuðningi við félagið með auknum fyrirsjáanleika t.d. með þjónustusamningi til nokkurra ára um tiltekin verkefni.
Hvaða breytingar telur flokkurinn nauðsynlegar til að auka skilvirkni og gæði fullnustukerfisins á Íslandi?
Samfylkingin leggur til víðtækar umbætur sem miða að því að bæta skilvirkni og árangur fangelsiskerfisins. Bygging nýs fangelsis í stað Litla Hrauns yrði forgangsverkefni hjá Samfylkingunni enda aðbúnaður og öryggismál á Litla Hrauni óboðleg. Að auki þarf að fjölga fjölbreyttari úrræðum verulega og tryggja að kvenfangar geti einnig afplánað í opnu fangelsi. Auka þarf möguleika fanga til að afla sér menntunar- og starfsþjálfunar innan fangelsa með það að markmiði að undirbúa fanga betur fyrir lífið eftir afplánun og innleiða aðgerðir sem styðja við geðheilsu og almenna vellíðan. Flokkurinn stefnir að því að skapa kerfi sem leggur megináherslu á betrun í stað refsingar, og tryggja farsæla endurkomu í samfélagið. Vistanir í lokuðum úrræðum ætti einungis að nýta þegar önnur úrræði ganga ekki út frá öryggissjónarmiðum. Þá þarf að tryggja öllum föngum réttmæta hækkun á gjaldskrám fyrir þóknanir, dagpeninga og fæðisfé. Ein megináhersla Samfylkingarinnar er að styrkja fölskyldutengsl fanga með ýmsum úrræðum að norrænni fyrirmynd.
Hvaða ráðstafanir hyggst ykkar flokkur gera til að styðja betur við fjölskyldur og aðstandendur fanga?
Samfylkingin viðurkennir þá erfiðleika sem fjölskyldur fanga standa frammi fyrir og styður við félög sem veita heildstæðan stuðning og þjónustu við þessar fjölskyldur. Afstaða er langstærsta félagið sem sinnir fjölskyldum fanga og ber félaginu að fá stuðning til að auka það starf enn frekar til að veita fræðslu, ráðgjöf og stuðning fyrir aðstandendur og börn fanga. Samfylkingunni líst vel á hugmyndir Afstöðu um sérstakan barnafulltrúa sem hefði það hlutverk að sinna málefnum barna fanga í samstarfi við Fangelsisyfirvöld þar sem öll fangelsi landsins myndu tilnefna að minnsta kosti einn fangavörð sem yrði tengiliður við fjölskyldufulltrúann.
SÓSÍALISTAFLOKKURINN: Hvernig sér ykkar flokkur fyrir sér að bæta samstarf við frjáls félagasamtök á sviði fangelsismála?
Sósíalistaflokkurinn leggur mikla áherslu á að barátta jaðarsettra hópa, líkt og félagasamtaka á borð við Afstöðu verði styrkt og til þess þarf að veita stöðugan rekstrarstyrk frá hinu opinbera. Mikilvægt er í þessu samhengi að skoða styrkveitingar til félagasamtaka þannig að styrkurinn verði veittur með fyrirsjáanleika í huga fyrir þau sem sinna starfseminni og veita þjónustuna. Erfitt getur verið fyrir hin verr settu að byggja upp og reka hagsmunabaráttu sína í skipulögðum hópum, félögum og samtökum og því kom Sósíalistaflokkurinn að stofnun styrktarsjóðs Vorstjörnunnar. Vorstjarnan vinnur að því að efla og styrkja rödd hinna verr settu og aðstoða þau við að leggja fram kröfur sínar og knýja á um að framtíðarlandið verði mótað eftir þörfum allra, ekki síst þeirra sem hafa mátt þola mestan órétt. Bæði sjáum við fyrir okkur að vera í beinu samstarfi við þessi frjálsu félagasamtök til að læra af þeim sem hafa reynsluna. Við vinnum mikið eftir ,,ekkert um okkur án okkar” hugmyndafræðinni. Því ef fólk hefur ekki reynsluna sjálft er hæpið að það sé með réttu lausnina. Hér bendum við einnig aftur á svar okkar um Vorstjörnuna. Setja þarf fram stefnu um það hvernig hið opinbera sjái fyrir sér að starfa og fela frjálsum félagasamtökum þjónustuveitingu. Þar sem frjáls félagasamtök líkt og Afstaða hafa oft sinnt starfi sem hið opinbera hefur ekki gert er ljóst að veita þarf þeim samtökum getu til að sinna starfi sínu að fullu. Sósíalistar sjá fyrir sér að setja þurfi fram langtímasýn og stefnumótun um þessa aðkomu félagasamtaka að þjónustuveitingu og stuðningi. Vorstjarnan er félag sem er styrkt og stýrt af félagsmönnum Vorstjörnunnar. Síðustu ár hefur allt framlag Reykjavíkurborgar til Sósíalistaflokksins runnið til Vorstjörnunnar sem og helmingurinn af framlagi ríkisins til Sósíalistaflokksins. Vorstjarnan hefur t.a.m. styrkt Samtök leigjenda, Pepp, samtök fólks í fátækt, leigjendur hjá Félagsbústöðum o.fl. Sækja má um styrki á netfanginu vorstjarnan@vorstjarnan.is
Hvaða breytingar telur flokkurinn nauðsynlegar til að auka skilvirkni og gæði fullnustukerfisins á Íslandi?
Stefna Sósíalistaflokksins þegar kemur að betrun fanga og endurkomutíðni í fangelsi er sú að hegningarlög og málefni fanga skuli fara í gagngera endurskoðun. Taka skal upp betrunarstefnu í stað refsistefnu. Til að byrja með telur Sósíalistaflokkurinn mikilvægast að takast á við ójöfnuðinn í samfélaginu. Það er vitað að aukinn ójöfnuður ýtir undir glæpi og ofbeldi í samfélögum. Þannig að forvarnir þurfa að byrja þar. Og mæta ungmennum snemma áður en vandamálin hrannast upp. Með kærleiksríkara velferðarkerfi eigum við möguleika á að fækka fólki innan fullnustukerfisins. Þau sem hljóta dóm ættu þar að auki ekki að þurfa að bíða lengi eftir að sitja hann af sér. Fjölbreyttari afplánun ætti að vera í boði fyrir vægari brot. Auka skal möguleika á opnum fangelsum þar sem hægt er að stunda nám og vinnu í þágu samfélagsins sem og uppbyggingar einstaklingsins. Það sama gildir um samfélagsþjónustu, heimafangelsi eða val um tiltekna meðferð í stað frelsissviptingar. Það skilar yfirleitt ekki betri árangri að loka fólk inni, sér í lagi ef langur tími er liðinn frá broti. Betrunarstefna dregur úr endurkomutíðni í fangelsi og mikilvægt er að refsistefna víki fyrir betrunarstefnu. Föngum skal gert kleift að stunda viðeigandi meðferð og betrun. Þá skal vera markviss eftirfylgni samkvæmt þörfum hvers og eins, eins lengi og þurfa þykir. Sósíalistar telja teymi líkt og vettvangsteymi Afstöðu mikilvægt í ferlinu og auka þurfi þjónustu sem slíka. Það þarf að styðja við það fólk sem þegar situr í afplánun til að byggja upp líf sitt með faglegri og jafningja aðstoð á einstaklings grundvelli. Við lok afplánunar skal veita stuðning til að tryggja öruggt húsnæði og framfærslu, aðstoð með að komast í atvinnu eða annarskonar virkni eftir þörfum sem og reglulega sálfræðilega- og félagslega aðstoð, þannig að samfella verði í endurhæfingu viðkomandi. Þá er mikilvægt að veita félagslegan stuðning í samskiptum við fjölskyldu og aðstandendur. Stefna Sósíalista fjallar um mikilvægi þess að huga sérstaklega að velferð ýmissa viðkvæmra hópa og jaðarsettra. Dæmi eru um að þau sem afplána refsivist hafi ánetjast fíkniefnum og í því samhengi þarf að afglæpavæða fíknisjúkdómurinn og taka á því sem heilbrigðisvanda. Notendur eiga að hafa virka og gilda aðild að stjórn velferðarkerfis í gegnum hagsmunahópa notenda. Þá sé hlustað á kröfur og ályktanir slíkra hópa en einnig sé hlustað á þarfir og vilja barna og í tilfelli barnaverndar sé einnig hlustað á fólk sem hefur reynslu af kerfinu frá barnsaldri. Föngum með vímuefnavanda þarf að standa til boða meðferðarúrræði. Að sama skapi skaðaminnkandi úrræði fyrir þau sem þurfa á því að halda. Velferðarkerfið á að stuðla að góðri andlegri sem líkamlegri heilsu og styðja þá sem missa færni og framfærslutekjur. Kerfið á að gagnast notendum vafningalaust, fólk innan fullnustukerfisins þarf að finna það á eigin skinni að velferðarkerfið sé að taka utan um það. Þá skal tryggja betri samfellu í stefnumótun velferðarþjónustunnar. Hið opinbera á að sjá íbúum hvers sveitarfélags fyrir þjónustufulltrúa velferðarmála sem veitir að fyrra bragði upplýsingar um réttindi fólks og tryggir þannig upplýsingaflæði þegar aðstoðar er þörf. Fólk á ekki að þurfa að bíða í óvissu með framfærslu. Tryggja þarf að fangar geti fengið markvissa þjónustu á sviði tannlækninga, heilbrigðis- og geðheilbrigðismála á meðan afplánun þeirra stendur og í kjölfar afplánunar. Tryggja þarf að sú þjónusta rofni ekki um leið og manneskjan er kominn úr fangelsi. Einnig er mjög mikilvægt að við séum hér að ræða um fullnægjandi heildræna þjónustu en ekki einstaka viðtöl, hér á að vera raunveruleg hjálp til þessara einstaklinga. Huga þarf að stöðu kvenna og hinsegin fólks í fangelsum í samráði við þann hóp. Auka þarf möguleika þeirra til fjölbreyttari afplánunar úrræða og starfa. Það hefur komið fram að möguleikar kvenna til að nýta sér opin úrræði eru mun lakari en karla, að sama skapi hafa þær einhæfara val um störf innan veggja fangelsa. Sósíalistar leggja áherslu á að taka þurfi tillit til mismunandi aðstæðna bæði sakborninga í sakamálum sem og fanga. Líta þurfi til heilsufars, félagslegra og fjárhagslegra aðstæðna. Tryggja þurfi að fólki sé ekki refsað fyrir utanaðkomandi aðstæður, sem það hefur enga stjórn á og hefði ekki geta fyrirbyggt. Þannig skuli ekki dæma fólk sem hefur stolið vegna hungurs eða neyðar t.a.m. heldur því hjálp. Markmiðið ætti að vera inngildandi betrunarvist frekar en refsivist sem jaðarsetur fólk enn meira.
Hvaða ráðstafanir hyggst ykkar flokkur gera til að styðja betur við fjölskyldur og aðstandendur fanga?
Nauðsynlegt er að tryggja að börn fanga hafi tækifæri til eðlilegrar tengslamyndunar við foreldra sem eru í afplánun, einnig ef fangar sem eiga börn hafa ekki búið við þau tækifæri sjálf að hafa átt góða tengslamyndun við sína foreldra sem börn að fjölskyldur fái stuðning eftir að afplánun lýkur. Bæta þarf aðstöðu í fangelsum fyrir fjölskyldur til að eiga góðar stundir saman í sem eðlilegustu umhverfi, góð hugmynd er að slíkar samverustundir fari ekki fram innan veggja fangelsis heldur til dæmis í íbúðarhúsnæði á vegum t.d. barnaverndaryfirvalda. Sami stuðningur þarf að vera fyrir hendi um leið og dómur liggur fyrir og styðja fjölskyldur á sem uppbyggilegastan máta frá fyrstu stundu. Sósíalistaflokknum finnst mikilvægt að fólkið með reynsluna komi að því að setja fram lausnina þess vegna þarf að skoða það sem félögin Afstaða, Bjargráð (þjónusta við aðstandendur fanga) og Aðgát (aðstandandafélag fanga) hafa verið að segja og vinna út frá þeim og með þeim í að koma þeirra kröfum/lausnum á framfæri. Sósíalistaflokkurinn telur það mjög mikilvægt að börn fanga fái mikinn stuðning við að takast á við erfiða stöðu. Við teljum að auka þurfi við stuðning til þessara barna með hjálp fagfólks sem og fólks með þessa reynslu, t.d. uppkomin börn fanga, fangana sjálfra, fólk sem á börn með föngum o.s.frv. Mikilvægt í þessu tilliti má nefna að það er fullkomlega óásættanlegt að sálfræðiþjónusta barna sé ekki enn orðin ókeypis á landinu í raun og veru, hér erum við að tala um mjög viðkvæman hóp sem þarf á miklum stuðningi að halda. Eftir að afplánun lýkur er nauðsynlegt að fangar og fjölskyldur þeirra njóti stuðning t.a.m. fjölskyldufræðings til að fóta sig í breyttum veruleika, öll fái þann stuðning hjálp sem þau þurfa en ekki hent út í djúpu laugina án fyrirvara.
VIÐREISN: Viðreisn telur að frelsissviptir eigi að njóta réttinda sem byggjast á grundvallarhugmyndum flokksins um réttlæti, mannréttindi og jafnrétti. Það felur í sér virðingu fyrir réttindum þeirra sem afplána refsivist eða eru frelsissviptir. Þetta endurspeglast m.a. í málflutningi og framlagningu þingmála og má þar nefna tillögu til þingsályktunar um betrun fanga. (https://www.althingi.is/altext/149/s/0378.html) og aftur um meðferðar- og endurhæfingarstefnu í málefnum fanga https://www.althingi.is/altext/150/s/0892.html sem lauk svo með útgáfu skýrslu stýrihóps árið 2021. https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Felagsmalaraduneytid/Sty%CC%81%200921-11%20ma%CC%81lefni%20fanga%20styttri%20stakar%20si%CC%81%C3%B0ur.pdf Spurningar Afstöðu og svör Viðreisnar
Hvernig sér ykkar flokkur fyrir sér að bæta samstarf við frjáls félagasamtök á sviði fangelsismála?
Samtal og virk hlustun er grundvallaratriði. Skilgreina þarf vel hlutverk, verkaskiptingu og nauðsynlega fagmennsku þeirra sem sinna þessum verkefnum. Huga ætti að því að setja upp formlegan samstarfsvettvang milli yfirvalda og frjálsra félagsamtaka.
Hvaða breytingar telur flokkurinn nauðsynlegar til að auka skilvirkni og gæði fullnustukerfisins á Íslandi?
Auka þarf og bæta sálfræðilega og félagslega meðferð í fangelsunum, menntun, starfsþjálfun og tækifæri til vinnu. Þá þarf að bæta mjög úrræði sem standa til boða fyrir þá sem eiga við alvarleg geðræn og/eða félagsleg vandamál að stríða. Styðja þarf fanga til að hefja nýtt líf að lokinni afplánun, með stuðningi og sjálfseflingu á meðan á afplánun stendur og að henni lokinni. Sérstaklega skal hlúð að ungum brotamönnum.
Hvaða ráðstafanir hyggst ykkar flokkur gera til að styðja betur við fjölskyldur og aðstandendur fanga?
Höfuðatriði er að auka fræðslu og samtal. Aðgengi að úrræðum þarf að vera skýrt og fjölskyldur og aðstandendur vita hvað er gert á hverju stigi afplánunar og hvað er í vændum, bæði innan vistunar og eftir. Þá er mikilvægt að efla almenna þekkingu og umræðu um mismunandi tegund fullnustu, s.s. afplánun í opnu eða lokuðu úrræði/fangelsi, dvöl á Vernd og dvöl heima með ökklaband og samfélagsþjónustu, sem ætti að nota í auknum mæli. Benda þarf á að um samfélagsþjónustu gilda ákveðna reglur og ekki síður um refsingar/afplánun þegar ungt fólk á hlut. Að mati Viðreisnar myndi almenn fræðsla um mismunandi úrræði og skilyrði við afplánun færa umræðu um fangelsismál á hærra plan.
SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN: 1. Hvernig sér Sjálfstæðisflokkurinn fyrir sér að bæta samstarf við frjáls félagasamtök á sviði fangelsismála?
Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð lagt áherslu á að styðja við bakið á frjálsum félagasamtökum á öllum sviðum samfélagsins. Þetta á einnig við um mikilvæg samtök eins og Afstöðu svo hægt sé að styðja betur við fanga og aðstandendur þeirra. Náið samstarf og ábendingar þeirra til kjörinna fulltrúa stjórnmálaflokkanna skilar sér í betri innsýn og þekkingu mála sem er ómissandi í löggjafarvinnu Alþingis. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í gegnum tíðina átt gott samstarf við Afstöðu, einkum í gegnum dómsmálaráðuneytið sem hefur verið í höndum Sjálfstæðismanna undanfarin 11 ár, og mun kappkosta að eiga áfram í góðu samtali og samvinnu við samtökin.
- Hvaða breytingar telur Sjálfstæðisflokkurinn nauðsynlegar til að auka skilvirkni og gæði fullnustukerfisins á Íslandi?
Að frumkvæði dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, hófst undirbúningur að byggingu nýs öryggisfangelsis. Með nýju fangelsi er stefnt að því að færa alla aðstöðu í nútímalegt horf. Um er að ræða tímamótabyggingu á Stóra Hrauni sem gjörbyltir aðbúnaði innan fullnustukerfisins, starfsaðstöðu fangavarða og vistarverum fanga. Enn fremur styður uppbygging á Stóra Hraun við það markmið stjórnvalda að veita föngum betri endurhæfingu, svo þeir eigi betri möguleika á að aðlagast samfélaginu að nýju. Þá var hafin vinna við að endurskoða fullnustukerfið í heild sinni í fyrsta sinn. Víðtækt samráð var haft við alla innan fullnustukerfisins og unnið að gerð grænbókar og síðar hvítbókar í málaflokknum. Ekki gafst þó tími til að klára þá vinnu en Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að fylgja þeirri vinnu eftir. Unnið var að endurbótum á aðstöðu á Litla Hrauni fyrir stoðþjónustu fyrir fanga og heimsóknaraðstöðu fyrir fjölskyldur, sem er mikilvægur þáttur í betrun og tengslamyndum fanga á vistunartímanum. Enn fremur voru gerðar endurbætur á aðstöðu á Sogni, sérstaklega ætluðum konum. Sjálfstæðisflokkurinn vill efla betrunarhlutverk fangelsa með auknu aðgengi að námi, starfsþjálfun, atvinnu og heilbrigðisþjónustu ekki síst sálfræðiaðstoð til að undirbúa fanga betur fyrir líf utan fangelsis og draga úr endurkomutíðni. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að beita sér fyrir bættri þjónustu við fanga sem glíma við fíknivanda og geðsjúkdóma. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að tækninýjunar séu nýttar til að bæta stjórnsýslu og auka gagnsæi í rekstri fangelsa, sem leiðir til betri nýtingar fjármuna og meiri árangurs.
- Hvaða ráðstafanir hyggst Sjálfstæðisflokkurinn gera til að styðja betur við fjölskyldur og aðstandendur fanga?
Undir forystu Sjálfstæðisflokksins hefur verið unnið að því að auðvelda samskipti milli fanga og fjölskyldna þeirra með því að bæta heimsóknaraðstöðu og innleiða tæknilausnir til að viðhalda og styrkja fjölskyldutengsl. Mikilvægi þessa verður seint ofmetið. Nauðsynlegt er að veita aðstandendum, sérstaklega börnum fanga, aðgang að sálfræðilegri ráðgjöf og félagslegum stuðningi í gegnum félagsþjónustu og sérhæfð úrræði til að takast á við þá erfiðleika sem fylgja fangelsisvist nákomins aðila. Um leið verður að auka fræðslu og upplýsingagjöf um réttindi og úrræði sem standa fjölskyldum og aðstandendum fanga til boða.
PÍRATAR: Hvernig sér ykkar flokkur fyrir sér að bæta samstarf við frjáls félagasamtök á sviði fangelsismála?
Í grunnstefnu Pírata er áhersla lögð á að taka upplýstar ákvarðanir byggðar á gögnum. Því er það mjög mikilvægt í allri stefnumótun og vinnu, að vera í góðu samstarfi við það fólk sem hefur þekkingu á þeim málaflokkum sem um ræðir. Hér má bæði nefna sérfræðinga sem vinna innan málaflokks en ekki síður sérfræðingana sem hafa beina reynslu og hafa lifað það sem um ræðir. Frjáls félagasamtök eru gífurlega mikilvægur hlekkur í þessu, enda mikil sérþekking þar innanborðs. Hér mætti sjá fyrir sér alls kyns nefndarvinnu og reglulega samráðsfundi, svo dæmi sé tekið. Frjáls félagasamtök á borð við Afstöðu eru gífurlega mikilvægur þáttur í velferðarkerfi okkar. Afstaða hefur verið mikilvægt afl í hagsmunagæslu fanga ásamt því að vera þrýstiafl og aðhald til ríkisstjórnar þegar kemur að málefnum fanga. Píratar telja mikilvægt að gæta þess að félög á borð við Afstöðu geti starfað á fjárlögum.
Hvaða breytingar telur flokkurinn nauðsynlegar til að auka skilvirkni og gæði fullnustukerfisins á Íslandi?
Píratar leggja áherslu á áfallamiðaða og skaðaminnkandi nálgun í heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Píratar gera sér grein fyrir að refsingar virka ekki til betrunar. Heilbrigðisstefna Pírata gerir ráð fyrir því að jaðarsettum hópum sé veitt sérstök athygli með fyrirbyggjandi úrræðum og meðferðarúrræðum, þ.m.t. er sérstaklega rætt um fanga í þessu samhengi. Píratar vilja vinna að því að draga úr einangrun jaðarsettra hópa, byggja upp stuðningsnet fyrir fólk í vanda og veita sálræna aðstoð til að vinna úr áföllum. Að auki vilja Píratar gera átak í húsnæðismálum fólks sem glímir við heimilisleysi til að koma í veg fyrir það mikla öryggisleysi sem einkennir lífi þeirra. Aukin heilbrigðisþjónusta og endurhæfingarúrræði, bæði fyrir þá fanga sem enn eru að afplána fangelsisvist sína innan veggja fangelsis, en ekki síður þá sem eru aðlagast samfélaginu er nauðsynleg. Píratar sjá fyrir sér að endurhæfingarmódel eins og Grettistakið í Reykjavík geti verið gríðarlega öflugur valkostur þegar kemur að afplánun utan fangelsis eða sem hluti af opnum úrræðum, Grettistakið hefur margsannað gildi sitt í endurhæfingu fólks með vímuefnavanda og getur verið öflugur valkostur fyrir fanga. Með vísan í svörin hér að ofan má sjá að nálgun Pírata á fullnustukerfið felur í sér róttækar breytingar frá því sem verið hefur. Við erum óhrædd við að stíga skrefin til betrunar að fullu og skilja við það óraunhæfa refsikerfi sem nú er við lýði. Það eykur ekki bara skilvirkni kerfisins heldur einnig gæðin, bæði fyrir fanga og fjölskyldur þeirra sem og samfélagið í heild.
Hvaða ráðstafanir hyggst ykkar flokkur gera til að styðja betur við fjölskyldur og aðstandendur fanga?
Píratar gera sér grein fyrir mikilvægi þess að hugsa samfélagið ekki eingöngu út frá einstaklingum heldur einnig út frá stærri einingum, þ.m.t. fjölskyldueiningum. Þarna ber að nefna áherslu á sterkt velferðarkerfi og aukinn stuðning við foreldra (verðandi, nýbakaða og aðra) þar sem áhersla er lögð á sérhæfð úrræði fyrir hina ýmsu jaðarhópa. Fjölskyldur og aðstandendur fanga flokkast að vissu leyti undir þá regnhlíf, og í samræmi við grunnstefnu Pírata og slagorðið "ekkert um okkar án okkar" myndu Píratar vilja leggja í þá vinnu að skoða þetta í samvinnu við hlutaðeigandi aðila. Píratar styðja heilshugar aukin úrræði til að hjálpa börnum fanga að takast á við erfiða stöðu sína. Börn fanga eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu, lengi hefur það verið gagnrýnt að börn komi inn í umhverfi fangelsa í heimsóknir til foreldra og Píratar hafa hug á því í samvinnu við fanga sjálfa sem og Afstöðu að búa til lausnir við þessum vanda. Eins telja Píratar það gríðarlega mikilvægt að koma sem mest í veg fyrir þá tengslaröskun sem verður þegar foreldri lendir í fangelsi. Það að foreldri fremji glæp með þeim afleiðingum að lenda í fangelsi á ekki að þýða að börnum þeirra sé refsað með þeim hætti sem fullnustukerfið gerir í dag.