Mikilvægt framlag til betrunar og samfélagslegrar aðlögunar

Mikilvægt framlag til betrunar og samfélagslegrar aðlögunar

Afstaða, hefur á undanförnum árum orðið ómissandi stoð í fangelsismálum á Íslandi Með fjölbreyttri og kraftmikilli starfsemi leggur félagið mikið af mörkum til að bæta lífsskilyrði fanga, aðstandenda þeirra og ekki síst til að auðvelda samfélagslega aðlögun fyrrverandi dómþola.

Árið 2024 hefur reynst vera enn eitt framfaraskrefið í starfi félagsins, með aukningu á þeim fjölda einstaklinga sem fá aðstoð og með nýjum verkefnum sem hafa víðtæk áhrif á samfélagið.

Það sem skilur Afstöðu frá öðrum samtökum sem vinna að mannréttindamálum, fyrir utan að vera eina félagið að vinna í réttindamálum fanga, er nálgun félagsins. Áherslan er ekki aðeins á lögfræðileg og félagsleg réttindi fanga, heldur einnig á jafningjastuðning, betrun og endurkomu í samfélagið eftir afplánun. Félagið beitir sér fyrir því að færa hina raunverulegu reynslu inn í samtalið um betrun með því að láta jafningja, sem hafa sjálfir verið í fangelsum, taka virkan þátt í starfi sínu.

Vettvangsteymi Afstöðu: Jafningjar og fagfólk í samstarfi

Einn af hornsteinum Afstöðu er vettvangsteymið, sem heimsækir reglulega öll fangelsi landsins. Teymið er einstakt að því leyti að þar vinna saman jafningjar, sem hafa sjálfir afplánað dóm, og fagfólk, svo sem félagsráðgjafar, geðhjúkrunarfræðingar, sálgætir og aðrir sérfræðingar. Þetta samspil milli reynslu og fagkunnáttu skapar einstaka nálgun á betrun og félagslega ráðgjöf, sem hefur sýnt sig að hafa djúp áhrif á bæði fanga og fyrrverandi dómþola.

Á árinu 2024 hefur vettvangsteymið farið í fjölmargar heimsóknir í fangelsi landsins, þar sem það hefur sinnt ótrúlegum fjölda einstaklinga. Í hverri heimsókn er rætt við fanga um þeirra persónulegu aðstæður, gefin félagsleg ráðgjöf og veittur stuðningur á jafningagrundvelli. Jafningjar í teyminu skapa mikilvægt traust á milli þeirra sem njóta þjónustunnar og fagfólksins sem stendur á bak við. Þessi nálgun hefur reynst sérlega vel til að opna á erfiðar samræður og skapa umhverfi þar sem fangar þora að ræða um erfiðleika sína.

Það sem gerir vettvangsteymið sérstakt er sú staðreynd að margir fangar upplifa að þeir standi á milli tveggja heima – þess samfélags sem þeir búa í innan fangelsismúranna og hins sem þeir snúa aftur til að afplánun lokinni. Jafningjar Afstöðu skilja þessa tilfinningu á djúpstæðan hátt, sem gerir þá hæfa til að miðla eigin reynslu á raunverulegan og áhrifaríkan hátt. Þeir hafa sjálfir gengið í gegnum það ferli að snúa aftur í samfélagið og geta gefið fögnum hagnýt og gagnleg ráð.

Aukin umsvif og áhrif á árinu 2024

Afstaða hefur á þessu ári tekið á móti fleiri einstaklingum en áður, og fjölgun þjónustuþega nemur um 12% samanborið við árið áður. Þetta sýnir að þörfin fyrir þjónustu Afstöðu hefur sjaldan verið meiri.

Þeir sem njóta þjónustu félagsins eru ekki aðeins fangar, heldur einnig fjölskyldur þeirra, aðstandendur og börn. Félagið hefur á sama tíma eflt félagslegan stuðning og ráðgjöf til aðstandenda fanga, sem gegnir lykilhlutverki í að aðstoða fjölskyldur við að halda tengslum við fanga meðan á afplánun stendur.

Samstarf við opinbera aðila hefur einnig aukist. Afstaða hefur verið virk í vinnuhópum á vegum ráðuneyta. Auk þess hefur félagið haft samstarf við sveitarfélög og alþjóðleg samtök, sem miða að því að bæta betrun og aðlögun fanga í samfélaginu.

Af nýjum verkefnum félagsins er ráðgjöf við íslenska fanga í erlendum fangelsum, viðtöl við gerendur ofbeldis, fræðsla ungmenna, ráðgjöf vegna aukins vopnaburðar ungmenna og mætti telja ótal margt til viðbótar en þetta hefur leitt til aukins samstarfs við fjölmargar stofnanir.

Mikilvægi starfseminnar fyrir samfélagið

Starfsemi Afstöðu er ekki aðeins mikilvæg fyrir þá einstaklinga sem félagið þjónustar, heldur fyrir samfélagið í heild. Með því að leggja áherslu á að draga úr endurkomu í fangelsi og auka möguleika fanga til að byggja upp nýtt líf eftir afplánun, dregur félagið úr kostnaði fyrir samfélagið. Þeir sem hafa fengið aðstoð við að aðlagast samfélaginu á ný standa betur að vígi til að verða virkir samfélagsþegnar, draga úr félagslegri hjálparþörf og koma í veg fyrir ný afbrot.

Framtíðarsýn og mikilvægi áframhaldandi stuðnings

Framundan eru ný verkefni og markmið, en til þess að þau nái fram að ganga er áframhaldandi stuðningur stjórnvalda nauðsynlegur. Fjárveitingar hafa verið og verða áfram lykillinn að því að Afstaða geti sinnt þeirri mikilvægu starfsemi sem félagið hefur byggt upp síðastliðin ár. Það er von okkar að stjórnvöld haldi áfram að styðja við bakið á Afstöðu svo við getum haldið áfram að veita þá þjónustu sem hefur sýnt sig að bæta líf einstaklinga og auki öryggi í samfélaginu.

Afstaða er stolt af því að vera leiðandi afl í betrun, umfjöllun, stefnumótun og aðlögun fanga á Íslandi. Með vettvangsteymi jafningja og fagfólks, auk víðtæks samstarfs við fjölbreytta hópa, er félagið mikilvægt afl til jákvæðra breytinga.